top of page
Samningur við Ísland ljóstengt 2017 undirritaður

Þann 28. febrúar 2017 skrifuðu fulltrúar fjarskiptasjóðs og 24 sveitarfélaga undir samninga um styrki sjóðsins til sveitarfélaganna vegna ljósleiðaravæðingar þeirra í tengslum við landsátakið Ísland ljóstengt. Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, staðfesti einnig samningana með undirskrift sinni og fór athöfnin fram á skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sveitarfélögin 24 fá samtals 450 milljónir króna í styrki, allt frá um 1,5 milljónum króna uppí nærri 63 milljónir. Auk styrkja frá fjarskiptasjóði þá leggja íbúar og sveitarfélög að lágmarki 350.000 kr. af mörkum vegna hverrar tengingar en í mörgum tilfellum er þörf á töluvert hærra framlagi heimamanna. Í þeim tilfellum að sveitarfélag ætlar ekki að eiga og reka eigið kerfi greiða fjarskiptafyrirtæki fyrir það að eignast slík kerfi eða reka fyrir hönd sveitarfélagsins.

Landsátakið í ljósleiðaravæðingu, Ísland ljóstengt, hófst vorið 2016 þegar fjarskiptasjóður bauð sveitarfélögum að sækja um styrk úr 450 milljóna króna potti til að leggja ljósleiðara í viðkomandi byggðarlag. Fjórtán sveitarfélög fengu styrk og lögðu sjálf fram viðbótarfjármagn eða fengu fjarskiptafyrirtæki í lið með sér. Alls náðu þau að tengja um eitt þúsund heimili og fyrirtæki í þessum áfanga.

Flóahreppur fékk ekki styrk að þessu sinni enda hart barist um styrkina á suðursvæði.

bottom of page