Umsóknir um styrki til uppbygginar árið 2018
Umsóknar- og úthlutunarferli vegna fyrirhugaðra framkvæmda sveitarfélaga 2018 er langt komið. Þann 23. nóvember 2017 voru opnaðar samtals 102 styrkbeiðnir frá 25 sveitarfélögum. Mat á þeim umsóknum liggur fyrir.
Alls eiga 23 sveitarfélög nú kost á alls 450 m.kr. styrk til þess að tengja um 1.000 lögheimili og vinnustaði með ljósleiðara á næsta ári. Skuldbinding um greiðslu er með fyrirvara um fjárlög og undirritun samnings.
Úthlutun styrkja er skipt upp í A og B hluta. Í fyrstu umferð þ.e. A-hluta eru umsóknir metnar og afstaða tekin til þess hvort að uppbyggingar áform sveitarfélaga séu raunhæf og umbeðin gögn sem fylgja skulu umsóknum fullnægjandi.
Tæknisvið uppsveita undirbjó umsókn um styrk f.h. Flóahrepps ásamt Guðmundi verkefnastjóra. Flóahreppur skilaði inn gögnum í A-hluta og er eitt af 23 sveitarfélögum sem um ræðir hér að ofan og eitt af sex sveitarfélögum á suðurlandi sem halda rétti til að sækja um styrk skv. B-hluta. Hin fimm sveitarfélögin eru Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Skaftárhreppur og Sveitarfélagið Árborg.